Útnefning Bæjarlistamanns Fjallabyggðar og afhending styrkja til menningarmála 2024

Ástþór Árnason bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2024
Myndina tók Albert Gunnlaugsson.
Ástþór Árnason bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2024
Myndina tók Albert Gunnlaugsson.

Þann 15. febrúar sl. var bæjarlistamaður Fjallabyggðar formlega útnefndur en Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 9. nóvember sl., að útnefna Ástþór Árnason Bæjarlistamann Fjallabyggðar árið 2024. Er það í 15. sinn sem nefndin útnefnir bæjarlistamann Fjallabyggðar.

Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. 

Menningartengdum styrkjum var úthlutað í eftirfarandi flokkum: Styrkir til menningarmála, styrkir til hátíðarhalda og stærri viðburða og styrkir til reksturs safna og setra.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti að veita styrki til þessara þriggja flokka á árinu 2024 að upphæð kr. 11.990.000.-. Þar af fara kr. 2.640.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 5.835.000.- til hátíðarhalda og kr. 3.515.000.- til reksturs safna og setra og þjónustusamnings vegna náttúrugripasafns. Áfram verður veittur styrkur til bæjarlistamanns og er upphæð hans óbreytt frá fyrra ári kr. 300.000.-

Í flokki fræðslumála samþykkti Bæjarstjórn Fjallabyggðar að veita styrki að upphæð 595.000.- og styrki til grænna verkefna að upphæð 2.500.000.-

Ægir Bergsson formaður markaðs- og menningarnefndar setti hátíðina og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi flutti ávarp, afhenti styrkina ásamt Ægi og veitti bæjarlistamanni viðurkenninguna. Við athöfnina voru flutt glæsileg tónlistaratriði.  Fram komu þau Edda Björk Jónsdóttir sópran og Hörður Ingi Kristjánsson sem lék á píanó. Fluttu þau þrjú lög.  Að lokinni athöfn bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar frá Kaffi Klöru í Ólafsfirði. 

Fjallabyggð þakkar fráfarandi bæjarlistamanni, Brynju Baldursdóttur hennar framlag til menningar og lista á árinu en allt árið 2023 vann Brynja að sýningunni Kom-andi á safn­anótt í Lista­safni Ein­ars Jóns­son­ar.  Með þess­ari sýn­ingu er Brynja að leit­ast við að skyggn­ast inn í órjúf­an­legt sam­spil komu og brott­far­ar, ei­lífa hringrás umbreyt­inga og and­ar­taks­ins þar á milli. Sýn­ing­in stend­ur til 25. ág­úst og eru íbúar Fjallabyggðar hvattir til að skoða sýninguna. 

Fjallabyggð óskar styrkhöfum velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru og Ástþóri Árnasyni innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2024.