Sól er yfir Fjallabyggð

Fyrsti sólardagur var í Ólafsfirði í gær fimmtudaginn 25. janúar. Sunnudaginn 28. janúar er fyrsti sólardagur á Siglufirði. Sólin hverfur frá miðjum nóvember og sést ekki í rúma tvo mánuði vegna hárra fjalla er umlykja Siglufjörð og Ólafsfjörð. 

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg verður með fjáröflun fyrir barnastarf félagsins í Golfskálanum í Skarðsdal á sunnudaginn.  Þar verða seldar ljúffengar sólarpönnukökur og hægt verður að setjast niður og fá sér kaffi og drykk. Ef veður og færi verður gott verður belgjabrautin opin og hægt að skella sér á gönguskíði frá Hóli.  Íbúar og gestir hvattir til að fagna sólarkomu og gæða sér á pönnukökum og fagna deginum saman.


Að venju hittust nemendur í Grunnskóla Fjallabyggðar og Leikskála fyrir neðan Siglufjarðarkirkju og sungu nokkur lög til sólarinnar. 

Sól er yfir Siglufirði 
sumarheið og skær, 
blálygn sundin, bjartur spegill 
bliki á þau slær. 
Fjöllin eins og varnarvirki 
vaka nær og fjær. 
Fjöllin eins og varnarvirki 
vaka nær og fjær

Sól er yfir Ólafsfirði
öllum gleði ljær
Blálygnt vatnið, bjartur spegill 
bliki á það slær. 
Inn með firði fjöllin vaka 
fannhvít nær og fjær. 
Inn með firði fjöllin vaka 
fannhvít nær og fjær. 
(Texti Ingólfur frá Prestbakka)