Jólakvöld og menningarhelgi framundan í Fjallabyggð

Kápukórinn í Ólafsfirði
Kápukórinn í Ólafsfirði

Það er sannkölluð jóla- og aðventu helgi framundan í Fjallabyggð. Hin árlegu jólakvöld verða á Siglufirði fimmtudaginn 7. desember og á Ólafsfirði föstudaginn 8. desember. Á jólakvöldum í Fjallabyggð er lengri opnun hjá verslunar- og þjónustuaðilum og íbúum og gestum boðið upp á notalega jólastemningu.

Jólakvöld á Siglufirði verður haldið fimmtudaginn 7. desember en þá eru verslanir og þjónustuaðilar með opið til kl. 22:00. Íbúum er boðið að ganga inn í notalega jólastemningu, ljúfa tóna og léttar veigar og ýmislegt verður að finna sem ratað gæti í jólapakkana í ár. 
Anddyri Alþýðuhússins verður opið frá 14.00 - 22.00 en þar má finna eitthvað sem ratað gæti í jólapakkann.

Jólabærinn Ólafsfjörður skartar sínu fegursta um þessar mundir og hið árlega jólakvöld í miðbæ Ólafsfjarðar verður föstudaginn 8. desember og hefst kl. 19:30. Á jólakvöldinu verður m.a. boðið upp á ýmis konar varning til sölu í Jólahúsunum. Anddyri Tjarnarborgar,  Gallerí Ugla og Smíðakompa Kristínar verða opnar og margt spennandi að sjá. Kaffi Klara verður með jólaplatta og jólaglögg á boðstólum. Jólasveinasýningin Egils verður í Pálshúsi og Kápukórinn víðfrægi fer um svæðið. Menntaskólinn á Tröllaskaga býður gestum í hús milli kl. 16:00 og 21:00 en þá verður opnuð haustsýning nemanda úr MTR. Milli kl. 16:00 og 18:00 verða skemmtilegar vinnustofur og jólaföndur fyrir börn auk veitinga. Þá verður eldstæði og sykurpúðar í miðbænum í boði Fjallabyggðar og margt margt fleira. 

Föstudaginn 8. desember. Aðalheiður S. Eysteinsdóttir opnar sýninguna Rjóður í Kompunni á Siglufirði. Sýningin opnar kl. 16:00 - 19:00 og stendur til 21. desember.  Anddyri Alþýðuhússins og Kompan verða opin frá kl. 14.00 - 17.00 alla daga til 21. des. 

Laugardaginn 9. desember kl. 17:00 verður Tónlistartríóið DASS með djassaða jólatónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Tríóið skipar Þórð Sigurðarson organista og píanóleikara, Borgþór Jónsson bassaleikara og Thelmu Marín Jónsdóttur söng- og leikkonu. Miðasala er á Tix.is . DASS af jólumTónlistartríóið DASS gaf út jólalagið Jól með þér undir nafni Thelmu árið 2020 sem hægt er að finna á Spotify en þetta er í fyrsta sinn sem þau koma fram saman. Á tónleikunum munu þau flytja sín uppáhalds jólalög og búast má við ljúfri og djassaðri hátíðarstemningu.  

Sunnudaginn 10. desember verður síðasti kirkjuskólinn á þessu ári í Siglufjarðarkirkju og verður án efa mikið um dýrðir og gómsætar veitingar á kirkjuloftinu. Aðventuhátíð verður svo í Sigufjarðarkirkju kl. 17:00 en þar munu Karlakór Fjallabyggðar, Kirkjukór Siglufjarðar og Vorboðakórinn (kór eldri borgara á Siglufirði) syngja.. Jólahugleiðingu flytur Örlygur Kristfinnsson og fermningarbörn taka þátt í stundinni. Prestur er Stefanía Steinsdóttir. Allir hjartanlega velkomnir.  Síldarminjasafnið bíður svo til Jólatónleika í Bátahúsinu kl. 20:00 en þar koma fram þau Daníel Pétur Daníelsson, Edda Björk Jónsdóttir, Hörður Ingi Kristjánsson og Tinna Hjaltadóttir. Aðgangur er ókeypis í boði Síldarminjasafnsins. Kaffi Klara í Ólafsfirði verður með opið þar sem ýmislegt gott verður á matseðli. 

Sannkölluð aðventu helgi fram undan í Fjallabyggð þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í notalegri jólastemningu.